Þú & Ég

ÞÚ & ÉG / YOU & I                                                                                              Steinar Berg Ísleifsson: Hugmynd. Gunnar Þórðarson: Upptökustjórn, útsetningar, tónlist.                Helga Möller, söngur – Jóhann Helgason söngur, tónlist, textar.              Vettvangur: Hollywood Ármúla, Los Angeles, San Francisco, Sopot Pólland o.fl. Útgefendur: Steinar hf. GTH Epic/Sony Inc. CBS AB o.fl.

brot úr íslenzkri poppsögu © Bárður Örn Bárðarson / JH

Dúettinn Þú & Ég er án nokkurs vafa holdgervingur diskótímabilsins í íslenskri dægurlagasögu og stendur þar talsvert hátt upp úr. Dúettinn var skipaður þeim Jóhanni Helgasyni og Helgu Möller sem bæði áttu langa tónlistarsögu að baki, en Jóhann og Helga höfðu áður starfað saman í hljómsveitinn Celsius 1976 – 1977.

Fyrsta plata dúettsins, Ljúfa líf, var unnin í Marquee Studios í London í maí og júlí 1979 og Hljóðrita í júní sama ár og kom á markað um haustið á merki Steinars h/f. Platan þykir enn ein sú besta sinnar tegundar sem gefin hefur verið út hér á landi og voru lög hennar leikin á diskótekum um allt land og er svo enn í dag. Lög eins og „Vegir liggja til allra átta“, „Dans, dans, dans“, „Í Reykjavíkurborg“ og „Villi og Lúlla“ urðu diskósmellir ársins 1979. Árið eftir kom út önnur platan Á Sprengisandi sem Gunnar Þórðarson gaf út á merki sínu GTH. Sú plata náði ekki sömu hæðum hvað vinsældir varðaði og fyrsta plata dúettsins, þó náði lag Gunnars „Í útilegu“ góðu flugi. Þriðja og síðasta breiðskífan Aðeins eitt líf var hljóðrituð í London og kom út á merki Steina hf. 1982.

Í ársbyrjun 1980 fór Steinar Berg með enska útgáfu af Ljúfa líf á tónlistarráðstefnu CBS í Stokkhólmi og náði þar samningi við tónlistarrisann Epic/Sony Inc. í Japan. Í framhaldinu kom japanskur erindreki útgáfunnar til Íslands til skrafs og ráðagerða. Nafni dúettsins var snúið upp á enska vísu, You & I, og tvær smáskífur og ein LP plata komu út á Japansmarkaði á vegum Epic/Sony og seldust samanlagt í um þrjú hundruð þúsund eintökum. Jafnframt kom smáskífan “My Hometown“/“Í Reykjavíkurborg“ út í Skandinavíu á vegum CBS AB. Þá var lagið „kóverað“ m.a. í Þýskalandi og Finnlandi.

Sumarið 2003 var fyrsta plata Þú & Ég endurútgefin á CD og í kjölfarið varð einskonar come back dúettsins sem fór af stað á nýjan leik með gamla efnið sitt og mikla gleði handa gömlum diskóboltum sem og ungum dansfíklum.

Í tilefni þrjátíu ára starfsafmælis 2009 hljóðrituðu Þú & Ég nýtt lag, „Heima er best“, eftir Gunnar Þórðarson við texta Þorsteins Eggertssonar. Í tilefni tímamótanna tróð dúettinn upp á völdum stöðum.