Lummurnar

LUMMURNAR 1977-1978

Gunnar Þórðarson: Hugmynd, útsetningar, upptökustjórn, hljóðfæraleikur.                                      Söngvarar: Linda Gísladóttir, Ragnhildur Gísladóttir, Ólafur Þórðarson, Valur Emilsson, Jóhann Helgason.                          Útgefandi: Ýmir hf.

brot úr íslenzkri poppsögu © Jóhann Helgason

Lummurnar voru hugarfóstur Gunnars Þórðarsonar og tók ég vel í að vera með í að endurvekja dægurflugur æskuáranna. Auk mín fékk Gunnar til liðs við sig þær Lindu og Ragnhildi Gísladætur, tvær ungar og upprennandi söngkonur sem þá nýlega höfðu kvatt sér hljóðs. Til að fullmanna söngflokkinn réð hann auk þess Ólaf Þórðarson úr Ríó tríói og Keflvíkinginn og fyrrverandi Óðmanninn Val Emilsson frænda minn (bróðir Ómars úr Rofum).

Söngsextettinn small vel saman á söngæfingum heima hjá Gunnari þar sem lögin voru valin og æfð í margradda búningi. Upptökur gengu vel fyrir sig í Hljóðrita í október 1977, enda viðfangsefnið létt og skemmtilegt, útsetningar Gunnars fjölbreyttar og valikunnir hljóðfæraleikarar í hverju rúmi.

Gamlar góðar lummur  kom á markaðinn fyrir jólin og sló rækilega í gegn hjá þjóðinni, seldist sem heitar lummur (platínusala) og ellismellirnir tóku til við að hljóma á ný á gömlu gufunni.

Sérstakur sjónvarpsþáttur var framleiddur og flokkurinn tróð upp á Arnarhóli á 17 júní. Lummurnar áttu söluhæstu plötu ársins og veittu verðlaunum þar að lútandi viðtöku á Stjörnumessu á Hótel Sögu.

Seinni platan, Lummur um land allt, var hljóðrituð í janúar 1978 og kom út um vorið og hlaut einnig góðar viðtökur, þó hún næði ekki sömu hæðum og frumburðurinn.