Celsius

CELSIUS 1976–1977

Meðlimir: Birgir Hrafnsson gítar, söngur / Birgir Guðmundsson gítar / Pálmi Gunnarsson bassi, söngur / Sigurður Karlsson trommur / Kristján Guðmundsson hljómborð / Helga Möller Jóhann Helgason söngur, slagverk.
Vettvangur: Sigtún Suðurlandsbraut, skólaböll o.fl.                    
Útgefendur: Steinar hf. Tónaflóð Celsius.

brot úr íslenzkri poppsögu © Jóhann Helgason

Eftir að hljómsveitin Change hætti störfum upp úr áramótum 1975-76 höfðu fyrrum Change-meðlimirnir Biggi og Siggi stofnað hljómsveitina Celsius ásamt Pálma Gunnarssyni, Kristjáni Guðmundssyni og Birgi Guðmundssyni. Síðla árs 1976 buðu þeir mér ásamt ungri upprennandi söngkonu, Helgu Möller stöðu söngvara í bandinu. Celsius lék funk- og soulkennda tónlist, jafnt frumsamda sem erlenda, og höfðu þeir m.a. útsett og gert áður óútgefnu lagi mínu, “Poker“, við texta Valtýs Þórðarsonar frábær skil.

Við Helga sungum og rödduðum til mótvægis við Pálma og Bigga og lékum auk þess á ýmis ásláttarhljóðfæri. Þó að um sjö manna sveit væri að ræða gekk samstarfið með ágætum og bandið tróð reglulega upp, m.a. í Sigtúni og Tjarnarbúð, sem og í framhaldsskólum.

Að frumkvæði Bigga Hrafns lauk Celsius við 14 laga hljómplötu í Hljóðrita 1977, sem kom þó ekki út þar sem hljómsveitin hætti störfum. Við upptökurnar nutum við aðstoðar Karls heitins Sighvatssonar á Hammond orgel og Halldórs Pálssonar á saxófón.

Um tveim áratugum síðar, eða 1996, voru lögin “Days Pass Me By“ eftir Birgi Hrafnsson og “Poker“ gefin út á safndisknum Íslensk poppsaga, en (fyrrum Change-lagið) “Love Your Mother“ hafði áður ratað á safnplötuna Flugur, 1981. Celsius var útnefnd bjartasta vonin af Dagblaðinu 1976.

Árið 2013 fundust spólurnar af Celsius plötunni frá 1977, en þær höfðu verið glataðar um árabil. Fyrrverandi meðlimir ákváðu að gefa gripinn út og fengu Didda fiðlu til að „baka“ gömlu spólurnar eftir kúnstarinnar reglum fyrir útgáfu á CD.