MAGNÚS & JÓHANN

MAGNÚS & JÓHANN Vettvangur: Tónabær, framhaldssskólar, útihátíðir o.fl.                        Útgefendur: Scorpion, MJ-Upptökur, Útgáfan-Skálholt, Paradís.

brot úr íslenzkri poppsögu © Bárður Örn Bárðarson

 Leiðir Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar lágu fyrst saman í hljómsveitinni Nesmenn, en Jóhann hafði áður verið með Rofum. Þegar Nesmenn hættu upp úr 1969 héldu þeir félagar samstarfinu áfram, fyrst með rafmagnsgítarana sína en skiptu þeim fljótlega út fyrir kassagítara. Árið 1970 varð þó hlé á samstarfinu þegar Jóhann fór til Bolungarvíkur og lék þar með hljómsveitinni Hugsjón og Magnús fór á sjóinn. Um haustið sneru þeir aftur og má segja að þá hafi samstarf þeirra hafist fyrir alvöru. Þeir kynntust bandarískum skiptinema, Barry Nettles, og sömdu nokkur lög við texta hans. Þessi landsfrægi dúett kom fyrst fram opinberlega í Reykjavík um páskana 1971.

Í félagi við þá Ingva Stein Sigtryggsson og Finnboga Kjartansson stofnuðu þeir sveitina Ábót sem vakti verðskuldaða athygli á tónleikum í Tónabæ. Þeir félagar vildu þó ráða ferðinni og stuttu síðar tóku þeir upp nokkur lög ásamt aðstoðarmönnum í Stapanum. Þeir Magnús og Jóhann náðu samningi við Scorpion hljómplötur, nýstofnaða útgáfu Jóns Ármannssonar, héldu í hljóðver og tóku upp eigin lagasmíðar og texta sem allir voru á enskri tungu. Fyrsta plata þeirra félaga kom út um vorið 1972 á merki Scorpion. Lagið “Mary Jane“ náði vinsældum og hefur haldið uppi merki plötunnar síðan. Þeir félagar töldu efnið vel boðlegt utan landsteinanna og fór Magnús því til New York og var plötunni sýndur nokkur áhugi af Mercury útgáfunni, en ekkert varð þó úr samvinnu þeirrar útgáfu við þá félaga. Þeir gáfust hins vegar ekki upp og næst var haldið til Lundúna, þar sem þeim var boðinn samningur hjá Orange og síðar hjá Chappell. Eftir samninginn við Orange, 1973 stofnuðu þeir hljómsveitina Change og undir þeim fána störfuðu þeir í Bretlandi til loka ársins 1975.

Það liðu heil fimm ár þar til þeir félagar Magnús og Jóhann sendu frá sér efni í sameiningu, en það var 1980 sem plata án titils, sem einfaldlega, líkt og fyrsta platan, hét Magnús og Jóhann, kom út. Ólíkt fyrri plötunni var helmingur plötunnar nú með íslenskum texta, og lög eins og „Hvar er ástin“?, „Ég ann þér“ og „Líf mitt liggur“ við náðu eyrum almennings. Fjórum árum síðar kom frá þeim félögum platan Ljósaskipti.

Árið 1992 héldu þeir upp á að 20 ár voru liðin frá því þeir höfðu sent frá sér fyrstu plötuna og efndu til afmælistónleika sem voru hljóðritaðir og komu út á plötunni Afmælisupptökur. Plötunni og endurkomu þeirra félaga var vel fagnað sem gaf útgáfunni Paradís, sem rokkgoðið Pétur Kristjánsson rak, hugmyndina að gerð eins konar heiðursplötu, Lífsmyndir Magnúsar & Jóhanns, þar sem þekktir söngvarar komu saman og fluttu lög þeirra félaga.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og mörgu sleppt, enda of löng saga að segja frá hverju því skipti sem þeir hafa komið saman. Þeir hafa ávallt náð að vekja athygli enda tveir frábærir laga- og textahöfundar á ferð, auk þess sem þessi tvísöngur þeirra gengur fyllilega upp.

Þó hér sé farið hratt yfir sögu af samstarfi þeirra félaga er þá að finna víðar í tónlistarsögunni. Hvort heldur er saman eða hvorn í sínu lagi. Þeir hafa og átt það til að aðstoða sér lítt þekktari tónlistarmenn, bæði með laga- og textasmíðum. Þá má finna nöfn þeirra sem bakraddasöngvara, t.d. í laginu „Um hverja helgi“, á fyrstu safnplötunni Lagasafnið, sem Albert Ásmundsson söng. Magnús og Jóhann eru óneitanlega stór nöfn í sögunni og saman eru þessi nöfn náttúrlega stórveldi.