Nú eruð þið sofnuð

Songwriter: Jóhann Helgason

Lyricist: Valdimar Hólm Hallstað

Nú eruð þið sofnuð og sólin löngu hnigin.
Söngur minn er þagnaður. Allt er kyrrt og hljótt.
Til jarðarinnar niður er nóttin þögul stigin,
og norðurljósin brenna, og særinn andar rótt.

Nú svífið þið í draumum með sólskinsbros á vörum,
því svefninn veitir öllum, sem þreyttir eru skjól.
Þó ykkur finnist veturinn sviplegur í svörum,
ég segi ykkur, börnin mín, hann kemur þó með jól.

Hvað skyldi ykkur dreyma? Um æskuglaðar annir,
eða ævintýrahallir og sólhlýtt blómavor.
Og leikvöllinn á hólnum, sem þekja freðnar fannir
og fela undir klakanum ykkar léttu spor.

En þegar aftur vorar, og grænka grund og balar,
þið gleymið því, að veturinn hafi verið til.
Og ilmurinn frá gróandanum gleði ykkar svalar.
Það er gott að vera ungur, ég fögnuð ykkar skil.

Já kæru, góðu börnin mín, ég ærslum ykkar uni,
án ykkar væri lífið svo tilgangslaust og kalt.
Vill nokkur maður lá mér, þó ég leiki ykkar muni.
Ég læt hér staðar numið og þakka fyrir allt.

En bráðum kem ég aftur, minn hugur til þess hlakkar,
í hljómgrunn ykkar bernsku hef ég gleði mína sótt.
Og nú verð ég að fara, ég kyssi ykkur, krakkar,
með kveðjubæn á vörum og segi – góða nótt.

Reykjavík 1979