Drottinn vakir, Drottinn vakir

Songwriter: Jóhann Helgason

Lyricist: Sig. Kristófer Pétursson

Drottinn vakir, Drottinn vakir
daga´ og nætur yfir þér.
Blíðlynd eins og besta móðir
ber hann þig í faðmi sér.
Allir þótt þér aðrir bregðist,
aldrei hann á burtu fer.
Drottinn elskar, – Drottinn vakir
daga´ og nætur yfir þér.

Löng þá sjúkdómsleiðin verður,
lífið hvergi vægir þér,
þrautir magnast, þrjóta kraftar,
þungt og sárt hvert sporið er,
honum treystu hjálpin kemur,
hann af raunum sigur ber.
Drottinn elskar, – Drottinn vakir
daga´ og nætur yfir þér.

Þegar freisting mögnuð mætir,
mælir flátt í eyra þér,
hrösun svo þig hendir, bróðir,
háðung að þér sækja fer,
vinir flýja, – æðrast ekki,
einn er sá, er tildrög sér.
Drottinn skilur, – Drottinn vakir
daga´ og nætur yfir þér.

Þegar æviröðull rennur,
rökkvar fyrir sjónum þér,
hræðstu eigi, hel er fortjald,
hinum megin birtan er.
Höndin sem þig hingað leiddi,
himins til þig aftur ber.
Drottinn elskar, – Drottinn vakir
daga´ og nætur yfir þér.