Vorið kom

Songwriter: Jóhann Helgason

Lyricist: Kristján frá Djúpalæk

Vorið kom á vængjum ljósum,
veg minn stráði hvítum rósum,
þíddi brjóstsins þunga trega,
þrár mér aftur gaf.
Vakti gleði fræ, sem falið
feigðarskugga var og kalið
svaf.

Og það söng í sefi og runna
söngva þá
, er hjörtun unna.
Barnsins augu, bóndans varir,
blessa slíkan gest.
Allt þau líta aftur vaknað,
er þau höfðu þráð og saknað
mest.

Þá tók fljótsins foss að duna,
fanga stallsins lausn að gruna.
Gróðurmoldin, undan ísum,
ilmi þrungin var.
Skýin sigldu seglum þöndum.
Silfurbárur upp að ströndum
bar.

Þá til starfs með þreki nýju
þjóðin gekk í skapi hlýju.
Risti plógur rakan svörðinn.
Rann á hafið skeið.
Haltir sínum hækjum fleygðu.
Hinir villtu nýja eygðu
leið.

Nóttin bak við leiti læddist.
Loðinn hreiðurbúi fæddist.
Lítið brölti í laut á fætur
lamb með hrokkinn feld.
Ástin snart hin ungu hjörtu.
Urðu hláturmild hin björtu
kveld.

Vorið kom um vegu bjarta,
vakti mínu dapa hjarta
von, sem húm og hríðarbyljir
höfðu lagt í bann.
Köld mín hyggja varð með vetri.
Vorið gerði úr mér betri
mann.