Útþrá
Songwriter: Jóhann Helgason
Lyricist: Margrét Jónsdóttir
Eg vil halda á höf, eg vil hvergi eiga töf,
eg sé hilla undir sólroðin lönd,
þar sem dagurinn skín, vorsins ljósfagra lín
leggur bjarma á ókunna strönd.
Út við hafsbrún eg sá
yfir Ægisdjúp blá
bera eldskin hins heilaga báls,
og hin logheita þrá
ber mig ljósvængjum á,
eg vil lifa – eg skal verða frjáls!
Ó, þú kúgunarmál, ó, þú kaupmennsku sál,
ó, þú krónunnar sárbeitta vald.
Þú, sem tjóðraðir mig, batzt mig tötranna stig,
þó að tár mín eg biði í gjald.
Eg var vakin með söng
fyrr um vordægrin löng,
þegar vorfuglar tóku til máls.
Eg á söngvarans blóð,
eg á sumarsins ljóð,
eg vil syngja – eg skal verða frjáls!
Út í holskeflu dans! Hver vill halda til lands,
þó að hvítlöðrið freyði á kinn?
Ut í baráttu og söng, þá er leiðin ei löng,
þeim, er lífið gaf óskastein sinn.
Eg á vængjanna þrótt,
eg skal vaka í nótt,
finna vorloft um arma og háls.
Gef mér vængina blær,
flyt mig vonaströnd nær,
eg vil vaka – eg skal verða frjáls!
Eg vil halda á höf, eg vil hvergi eiga töf,
eg sé hilla undir sólroðin lönd,
þar sem dagurinn skín, vorsins ljósfagra lín
leggur bjarma á ókunna strönd,
bera höfuðið hátt,
teyga heiðloftið blátt,
draga hvítvængja fánann á stöng,
hefja könnunarför,
ýta knerri úr vör,
leysa kúgarans fjötra með söng!