Úr nótt

Songwriter: Jóhann Helgason

Lyricist: Þorsteinn Erlingsson

Nú máttu hægt um heiminn líða
svo hverju brjósti verði rótt,
og svæfa allt við barminn blíða,
þú bjarta, heiða júlínótt.

Þau tvö, sem alein ætla að vaka,
þér einni gefa traustið sitt
þau má ei neitt til morguns saka
við mjúka vinarskautið þitt…

Nú fá þau loksins frið og næði
hin fagra stundin nálgast skjótt.
Hve ung og fögur eru bæði,
hve elska ég þau, kæra nótt…

Og dóms þíns gjarnan glöð þau bíða;
þú getur aldrei verið ströng
við æsku svo frjálsa og fríða,
við faðmlög svona heit og löng…

Þann stað sem helgast ástum einum,
má ekki snerta fótur vor.
Í dögg á Edens aldinreinum:
sjást aldrei nema tveggja spor.

Þar sjá þau dýrðarsali þína,
uns sólin upp að morgni rís,
sem gefa alla ævi sína
fyrir eina nótt í Paradís…

En blíða nótt, þau bráðum rekur
á brautu morgungyðjan rjóð
og fuglasveitir sólin vekur
að syngja þeirra brúðkaupsljóð.

Þig kveðja þakklát þessi hjörtu,
því þegar sól við fjöllin rís,
þá leiftra sverðin logabjörtu,
sem loka þeirra Paradís…

Og gáttu vær að vestursölum
þinn vinarljúfa friðarstig,
og saklaus ást í Íslands dölum
um alla daga blessi þig.