Sólin skín ekki alltaf

Songwriter: Jóhann Helgason

Lyricist: Þorsteinn Eggertsson

Sólin skín ekki´ alltaf
og mér verður kalt af
að labba´ um göturnar í roki og byl
en samt allan daginn
arka ég um bæinn
því mér finnst skemmtilegt að vera til.

Ég sé fólk af ólíkustu gerðum
elta hvað annað á röndunum
ræðast við og vera´ í innkaups ferðum
og lítil börn að gefa öndunum.

Sólin skín ekki´ alltaf
síðan að hún valt af
himninum í einu rokinu
það má rigna stundum,
köttum eða hundum
það þyngir ekki á mér okinu.

Ég vil ekki hafa áhyggjur af neinu
lífið er stutt og ég vil lifa því
þó fólk sé svartsýnt, þá gildir það mig einu
það má tala´ um svindl og svínarí.

Sérhverjum degi skal nægja ein þjáning í senn
við skulum sorgum burtu bægja
bæði konur og menn.
Við skulum þekkja´ okkur sjálf
og vera við sjálf
ég veit að það má skemmta sér í heiminum enn.

Sólin skín ekki´ alltaf
og mér verður kalt af
að finna öfund eða græðgiskennd
það má bræða skafl með
ímyndnarafli
þó hamingjan verði´ engum manni kennd.

Sólin skín ekki´ alltaf
og mér verður kalt af
að labba´ um göturnar í roki og byl
en ég á sól í hjarta,
sé því veröld bjarta
og mér finnst skemmtilegt að vera til.