Jólasveinninn kemur

Songwriter: Jóhann Helgason

Lyricist: Valdimar Hólm Hallstað

Nú er ég að koma
yfir fönn og freðið láð,
ferð mín löng er hafin
og endar ekki í bráð.
Pokinn minn er þungur
ég þramma veginn einn,
það er ekki allra
að vera jólasveinn.

Í pokanum er ýmislegt
sem allir krakkar þrá,
en einungis á jólunum
góðu börnin fá.
Hjá þeim sem eru óþæg
og aldrei hafa frið,
ég arka framhjá bænum
og kem þar ekki við.

Já ef þið bara fengjuð
að pota í pokann minn
og pínulítið gægjast
í allann varninginn.
Þið mynduð verða fegin
og fjarskalega kát
og foreldrunum ykkar
svo þæg og eftirlát.

Já, þar er nú margt skrýtið
og skemmtilegt að sjá,
ég skal nú bara telja upp
það helsta sem ég má.
Við skulum ekki vera
að tala um þetta hátt
en heldur bara tala um
það ósköp skelfing lágt.

Hérna hef ég sæta
mola, súkkulaði og kex,
og safamikið aldin
er í heitum löndum vex.
Rúsínur og sveskjur
og epli og aldinmauk,
og allavega ljúfmeti
í flösku eða bauk.

Og ekki má nú gleyma
að líta á leikföngin,
það langar flesta krakka
til að eiga þau að vin.
Og hérna hef ég úrval
sem enginn hefur séð,
já, alveg er það dæmalaust
hvað skrýtið ég er með.

Ég hef hérna bíla
og járnbrautir og skip,
jólatré og kerti
þar má líta fagran grip.
Brúðustrák og stelpu
og kanínu og kýr,
kindur, naut og hesta
og sel og villidýr.

Og svo má ekki gleyma
því sem allra fegurst er,
efni í nýjar flíkur
sem hvert af öðru ber.
Allavega litum
í blússu, kápu og kjól,
og kannski líka buxur
því nú eru bráðum jól.

Nú hætti ég að telja
það er eftir ýmislegt,
enginn getur pokann minn
í fljótu bragði þekkt.
En ef þið skylduð verða
svo ósköp þæg og góð,
er ekki gott að vita nema
ég ljúki upp mínum sjóð.

Best er nú að flýta sér
því bráðum koma jól,
bjart er yfir heimi
þó myrkur feli sól.
Og ef þið góðu krakkar
mínir iðkið þægðina,
eflaust kem ég hérna
við á jólanóttina.