Í leyni

Songwriter: Jóhann Helgason

Lyricist: Þorsteinn Erlingsson

Í stofuna sólin sæla skein;
þau sátu þar tvö við borðið ein,
og mærin var ung og hjartahrein;
hún hugsaði um þann hinn fríða svein
í leyni.
Þar sat hún svo stillt og starði í ró
á stafina fögru, sem hann dró,
en fegri var höndin fríða þó –
því fann hún svo títt að hjartað sló
í leyni.
Hún hlustaði á orð hins unga manns
og undraðist lærdóm kennarans;
hún geymdi þann allan fræðafans –
og fallegu bláu augun hans
í leyni.
Og hann, sem þó bar svo létta lund,
hér lék hann sér aldrei neitt við sprund;
hún þráði þó alltaf þennan fund –
því þetta var hennar sælustund
í leyni.
Þar situr hann fríðu fljóði hjá
og fingrunum hennar stýra má;
hann var ekki strangur starfinn sá,
en sterklega höndin titrar þá
í leyni.
Og hann var í bekknum hvers manns lið
og hafði þar á sér lærdóms snið,
en þegar hann sest við hennar hlið –
þá hefur hann skakkt og roðnar við
í leyni.
Og honum það stundum hugraun fær,
hve hjartað hans títt og órótt slær,
er á hann þar leit hin unga mær –
en indælar voru stundir þær
í leyni.
Hún lærði að reikna – skakkt og – skjótt
og skrifaði bæði vel og fljótt.
En röddin hans þýða hvíslar hljótt –
hún hvíslaði bæði dag og nótt
í leyni.