Fjalla-Eyvindur og Halla – Rokkópera
Lengi var von á einum. Jóhann Helgason, einn af okkar elskuðustu tónsmiðum, byrjaði að bauka við samningu á verki þessu snemma á áttunda áratugnum er rokkóperur eins og Jesus Christ Superstar og Hair voru að gera það gott. Tími til að klára var þó enginn næstu áratugi og óperan lá því óbætt hjá garði lengi vel. Síðustu árin tók Eyjólfur þó að hressast og nú erum við komin með þetta í eyru – og hendur – en ég sit hér við eldhúsborðið heima og fletti í forláta bók þar sem finna má geislaplötu, texta, formálsorð, sögu, myndir og skýringarkort. Allt um hina mögnuðu sögu Eyvinds og Höllu sem Íslendingar hafa löngum heillast af. Það er mikil hetjuára í kringum par þetta og þrátt fyrir að vera eftirlýst sakafólk glóir á það líkt og Hróa Hött og Marían. Þetta er því saga sem fellir sig vel að rokkóperuforminu, hvar hægt er að leika sér með hæðir og lægðir þær sem í söguþræðinum eru.
Óperan er byggð á Sögu Fjalla-Eyvindar eftir Guðmund Guðna Guðmundsson. Vinna við hana hófst fyrir um hálfri öld en það var á áttunda áratugnum sem lunginn af lögunum varð til eða 18 lög af 22. Í bókinni setur Jóhann ár og stað við hvert lag, Keflavík 1973, Reykjavík 1977 og svo framvegis og sjá má að efnið hefur verið yfirfarið árið 2017. Jóhann samdi þannig alla tónlist og texta auk þess að útsetja en upptökustjórnendur eru skráðir Karl Olgeirsson og Stefán Örn Gunnlaugsson ásamt Jóhanni. Hljómsveit skipa Karl Olgeirsson (píanó), Ólafur Hólm Einarsson (trommur), Guðmundur Pétursson (gítar) og Andri Ólafsson (bassi). Söngvarar eru þau Stefán Jakobsson, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og Magni Ásgeirsson. Platan var tekin upp í ýmsum hljóðverum og fjölmargir aðrir en þeir sem taldir eru upp komu að gerð hennar og verkefnisins alls.
Mig langar til að reyna, svona í upphafi, að átta mig á heildartón verksins. Jú, það má vel heyra áhrif frá téðum áttunda áratugs söngleikjum en um leið eru höfundareinkenni Jóhanns nokkuð greinileg. Mér finnst ég merkja dimmleita, melankólíska áru einnig, svona í takt við viðfangsefnið og stöku Þursakrydd má finna. Sérstaklega í „Böðulsvísa“ sem var reyndar samin 2015, við texta eftir óþekktan höfund. Öll lögin, eða svo gott sem, eru í hefðbundnum popp/rokk gír og taka síðan á sig þá mynd sem þjónar sögunni best. Í „Forleikur-Söngur Eyvindar“ kynnir Eyvindur sig (Stefán Jakobsson) og hvíslandi kór kallar eftir frekari svörum frá okkar manni. Í „Söngur sýslumanns“ talar yfirvaldið (Magni Ásgeirsson) um þá ósk sína að klófesta Eyvind á meðan „Ó, Halla“ er ástaróður til Höllu og því í ballöðuformi á meðan hin lögin tvö eru í grípandi poppslagaratakti. Ýmislegt er þá nýtt til að krydda út í gegn, það er t.d. æði skemmtilegur mariachi-bragur á „Saman“. Svona vindur plötunni fram, það er napurt og dulúðugt um að litast í lögum eins og „Vetrartíð“ á meðan ærsl nokkur einkenna „Brennum allt“. Textar allir eru góðir og haganlega ortir, Jóhann er með gott vald á málinu og ljúft að heyra ærlega íslenskuna („Með klöpp fyrir kodda við klakaþil“).
Það er vel hægt að sjá þetta stykki fyrir sér á sviði en ekkert hefur verið ákveðið með slíkt veit ég. Verkið er gríðarlega metnaðarfullt og ég verð að a) hrósa Jóhanni fyrir að bæði leggja í þetta og klára og b) að ganga svo fagmannlega frá öllu.
Afurðin er þá vel til fundið tillegg í íslenska menningarframleiðslu ef ég má orða það sem svo, hvar menningararfur þessa lands er nýttur. Ef við görfum ekki í þessu, nú hver þá? Framhaldsskólar landsins og leikhús öll geta nú losnað við að setja Jesus Christ Superstar upp í milljónasta sinn, kjósi þau svo.
Arnar Eggert Thoroddsen
MAGNÚS & JÓHANN – Í TÍMA
Magnús og Jóhann slógu í gegn 1971 í kjölfar kassagítarbyltingarinnar sem Crosby Stills og Nash voru kannski forsprakkar fyrir.
Ferill þeirra hefur verið skrautlegur og engan veginn fyrirsjáanlegur. Þeir hafa gefið út fjölda góðra sólóplatna, voru í Change, gáfu út sem Pal Brothers og Ábót. Unnu í Bretlandi að frægð og frama, sömdu ógrynni frábærra laga fyrir aðra, sömdu ættjarðarlög, upphöfðu forn ljóðskáld, já þetta eru alvöru tónlistarmenn.
En samt hafa þeir aldrei gert meistaraverkið, kannski einstöku ágæta plötuna …. fyrr en nú, að þeir ná að gefa hana út … og kannski fyrir tilviljun!
Og það er ekki vegna þess að þeir syngja á íslensku, mér hefur oftast þótt það frekar truflandi, það er að segja til samanburðar við enskumælandi músíkina, sem er mín músík!
Þetta er vel upptekin plata, en Magnús og Jóhann sáu um upptökuna ásamt Jóni Góða Ólafssyni sem spilar líka hljómborð. Spilamennskan er vönduð og markviss, þarna er Eiður Arnarsson á bassa, Stefán Már Magnússon á gítar og Kristinn Snær á trommum.
Magnús og Jóhann hafa poppið í sér og fraseringin er alheims og poppísk, ekki þessa týpíska íslenska sönglaga- og revíufrasering.
Þrjú lög af plötunni hafa nú þegar ómað á útvarpsstöðvum landsins en þar er um að ræða lögin Sumir dagar, Þar sem ástin býr og Ekki er allt sem sýnist.
Magnús á 7 laganna. Rödd Magnúsar hefur breyst meira, en það er bara viðkunnanlegt því hann kann að nýta sér það. Sumir dagar, er eitt af þessum lögum og textum sem er svo vel gert að maður bara segir takk. Einlægur, hreinskilinn, alveg sama hvort hans tilfinningar séu bara hans eða eigi samhyggð.
Ekki er allt sem sýnist, er svipuðum stíl, en þó ekki, því ástin er í stærra hlutverki, “sáttur sit ég hér með þér….” falleg orð sem skipta máli. Hrafnamál er dýrt kveðið, ég er ekki viss hvað Maggi er að fara fyrir víst, en lagið er gott og nokkuð þungt. Norðanátt, aftur djúpt samið, … þar sem andartakið bíður mín við tímans læsta hlið… þetta er eflaust byggt á einhverri æðri speki …. ég á eftir að heimsækja þetta aftur. Og flott, svona dálítið írskt sánd.
Upphafslagið Afturgöngur hefur upp rétta stemmningu, þungur taktur, djúpur texti, alvöru músík. … hér er reimt þar til við göngum aftur hér saman… eins og Leonard Cohen og Bob Dylan fyrr á árinu, er yfirvofandi dauði fullorðinnar kynslóðar að að herja hugann.
Og keltneski takturinn sem Magnús upphafði á Álfum í denn og síðan á Íslandsklukkum er áberandi í laginu Seiður. … svo lengi ég leitaði þín, loksins fann þig í tíma…
Jóhann er mun léttari í tóni, svona eins og Paul á móti John. Þó að Vor hinsti dagur fjalli um dauðann og skilnað, er röddinn og léttleikinn meiri og bandið fylgir því eftir. Ljóðið er eftir Halldór Kiljan Laxness og er auðvitað snilld sem Jóhann undirstrikar vel.
Lokalagið er líka lag sem Jóhann semur við frábært ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Kossavísur. Og ekki kæmi mér á óvart að þetta lag yrði uppáhaldslag einhverra í tímans tönn.
Og Jóhann kann að semja popplög, Þar sem ástin býr og Nóg, sem hefði verið flott með Þú og ég, fullt af ást eins búast mætti við af unglingskrakka!
… ef lífið mynda lofa að vera vinur þinn … eru upphafslínur lagsins Getur tíminn læknað sár. Góður texti gott lag og svo er það Segðu mér satt … trúi á ást sem aldrei deyr …ég elska þig þar til ég dey. Ja hérna, það hlýtur að vera einstakt að hafa fengið að upplifa þetta.
Þessir strákar sem ég hef horft ganga í gengum eitt og annað úr fjarska virðast hafa náð jafnvægi og gert frábæra plötu. Takk. 10 af 10 stjörnum.
Halldór Ingi Andrésson 2012