CHANGE / THE PAL BROTHERS 1972-1975
1972 Magnús Þór Sigmundsson; söngur, kassagítar / Jóhann Helgason; söngur, bassi. 1973-1974 Magnús & Jóhann / Birgir Hrafnsson; gítar, röddun / Sigurður Karlsson; trommur. 1975 Maggi, Jói, Biggi, Siggi/Björgvin Halldórsson; söngur /Tómas M. Tómasson; bassi. Vettvangur: Tjarnarbúð, Klúbburinn, landsbyggðin, London, Costa del Sol o.fl. Útgefendur: Orange, Change Records, Chappell, EMI.
brot úr íslenzkri poppsögu © Jóhann Helgason
Upphafið að Change- ævintýrinu má rekja til þess að ég samdi lagið “Yaketty Yak, Smacketty Smack“ (YYSS). Fyrsta LP platan okkar Magga, Magnús og Jóhann kom út á vordögum 1972 á merki Scorpion, nýstofnaðrar hljómplötuútgáfu þáverandi poppmógúls og síðar vínbónda í Frakklandi, Jóns Ármannssonar. Um sumarið samdi ég YYSS sem var harla ólíkt lögum LP plötunnar.
Ég hringdi í Magga og sagði honum að ég hefði á tilfinningunni að við fengjum samning út á lagið erlendis. Maggi hafði samband við fjársterkan frænda sinn sem greiddi götu okkar til að hljóðrita lagið í London. Hljómsveitin Náttúra hafði bókað tíma í Orange Studios í október vegna plötu sinnar Magic Key og fengum við stúíótíma í kjölfar þeirra. Við fengum Gunna Þórðarson í lið með okkur sem upptökustjóra og strengjaútsetjara og nutum jafnframt aðstoðar Björgvins Gísla, Kalla Sighvats og Óla Garðars úr Náttúru, auk breskra strengjaleikara.
Eigandi hljóðversins Cliff Cooper að nafni, sem jafnframt var maðurinn á bak við Orange magnarana sem Stevie Wonder og Fleetwood Mac höfðu gert víðfræga heyrði YYSS í stúdíóinu og vildi ólmur gefa lagið út á smáskífu hjá nýstofnaðri útgáfudeild Orange. Hann gerði okkur Magga samningstilboð sem við undirrituðum fyrir heimferðina.
Smáskífan kom út á merki Orange í Englandi og víðar vorið 1973 undir flytjenda- nafninu Change, (ritað með öfugu Gi). Í auglýsingaskyni fórum við Maggi í viðtöl og myndatökur fyrir bresk tónlistartímarit og Orange lét framleiða og dreifa gullkveikjurum með áletruninni Change til plötusnúða og útvarpsstöðva. Þar sem Cooper vildi hafa aðra smáskífu tilbúna tímanlega til að fylgja YYSS eftir, héldum við Maggi utan í ársbyrjun 1973 og hljóðrituðum þrjú lög; “Candy Girl“, “Then“ og “Peanuts“ ásamt breskum útsetjara, leiguspilurum og Orange-artistanum John Miles, (síðar hljómsveitarstjóra Tinu Turner).
“Yaketty Yak, Smacketty Smack“ náði ekki þeim árangri sem Cooper hafði vænst. Hann hafði upplýst okkur um að ýmsum brögðum væri beitt í tónlistarheiminum til að koma lögum á vinsældarlista og kvaðst m.a. vita hvaða fyrirtæki væru í tengslum við mafíuna.
Lagið “Candy Girl“ (CG), var sett á oddinn á næstu smáskífu og Cliff skipti flytjendanafninu Change út fyrir The Pal Brothers sem þótti hafa léttari ímynd. CG fékk ívið betri viðtökur en YYSS og komst m.a. ofarlega á Playlist hjá BBC. Þó smáskífurnar tvær næðu ekki tilætluðum árangri í Englandi urðu bæði lögin geysivinsæl heima á Íslandi og CG m.a. kosið lag ársins í útvarpsþætti Arnars heitins Petersen, Tíu á toppnum sem og hjá tímaritinu Vikunni.
Þegar hér var komið sögu fórum við Maggi að hugleiða stofnun hljómsveitar til að vinna lögin okkar á persónulegri hátt en með breskum session mönnum. Eftir nokkrar vangaveltur höfðum við samband við þá félaga Birgi Hrafnsson og Sigurð Karlsson úr hljómsveitinni Svanfríði, sem var um það leyti að leysast upp. Þeir Biggi og Siggi voru tilbúnir í slaginn, fullir eldmóðs og afréðum við að nota Change nafnið á sveitina.
Við hófum fljótlega æfingar á nýju frumsömdu efni og settum stefnuna á London þar sem við Maggi vorum ennþá samningsbundnir Orange. Eftir nokkra vikna æfingalotu vorum við tilbúnir með tíu laga plötu og héldum utan sumarið 1973. Við náðum þó ekki að fullklára upptökur á þeim tíma sem við fengum til umráða. Það var ekki fyrr en sumarið 1974 að við snérum aftur til Englands að freista þess að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, en þá var komið upp gagnkvæmt áhugaleysi fyrir áframhaldandi samstarfi Change og Orange.
Í millitíðinni höfðum við verið í símsambandi við Jakob Frímann Magnússon sem búsettur var í London varðandi að finna fyrir okkur færan upptökustjóra til að vinna að LP plötu með nýju efni, sem við hugðumst gefa út á Íslandi fyrir jólin 1974. Kobbi hafði náð að vekja áhuga þekkts bandarísks upptökustjóra, Steve Rowland að nafni, sem átti margar metsöluplötur að baki á sjöunda áratugnum. Kobbi hringdi í okkur frá skrifstofu Rowlands, sagðist vera umkringdur gullplötum og að Steve hefði einkum heillast af söngnum í laginu “Sunshine“ og hváð “is it a boy or a girl“, en slíkt þótti lofa góðu innan bransans.
Til að gera langa sögu stutta, héldum við á fund Rowlands þar sem hann var við upptökur í Chappell Studios í New Bond Street. Við leyfðum honum að heyra nokkur af nýju lögunum og reifuðum í framhaldi upptökuáætlun. Málin æxluðust hinsvegar á þann veg að Steve átti of annríkt þegar til átti að taka, en fékk í staðinn æskuvin sinn úr Kaliforníu, H.B. Barnum, víðfrægan útsetjara og upptökustjóra, sem staddur var í Englandi með The Osmonds, einu heitasta fyrirbærinu í bransanum um þær mundir og var jafnframt að útsetja strengi fyrir T-Rex.
Barnum kom upp í Chappell og við sungum fyrir hann nokkur lög með kassagítörum við flygilinn og sögðumst vilja gera LP plötu fyrir Ísland. Barnum spurði afhverju við vildum gera plötu bara fyrir Ísland, því ekki fyrir heiminn. Við vorum reyndar ekki búnir að ná því að hann vildi í raun vinna með okkur, fannst það satt að segja harla ótrúlegt þar sem hann hafði unnið með ótal stórstjörnum á borð við The Supremes, Arethu Franklin og Frank Sinatra.
En Barnum virtist ákveðinn og í framhaldi brugðumst við skjótt við; tókum tvö hús á leigu í Kent, hljóðeinangruðum annann bílskúrinn og lögðumst í æfingar. Platan var síðan tekin upp í Chappell hljóðverinu undir stjórn Barnums og nú líkt og í tilfelli YYSS, var frændi Magnúsar okkar fjárhagslegi bakhjarl. Kunningi Barnums Paul Robinson að nafni, fyrrum stjórnarmaður hjá RCA í Bandaríkjunum sem sestur var að í London kom oft í stúdíóið að fylgjast með upptökum. Hann hafði stofnað sitt eigið útgáfufyrirtæki í Englandi og rak jafnframt R & R Management ásamt Steve Rowland. Það breyttist svo í Chappell/Robinson sem hafði m.a. umboð fyrir Change.
Að afloknum upptökum tók Barnum spólurnar með sér heim til Hollywood þar sem hann hljóðritaði strengja- og blásturshljóðfæra útsetningar sínar ofan á lögin. Þegar við fengum böndin til baka vorum við hinsvegar ekki allskostar sáttir við útkomuna. Þrátt fyrir frábærar útsetningar Barnums, fannst okkur aukahljóðfærum gert of hátt undir höfði á kostnað hljómsveitarinnar og fengum við Steve Rowland til að endurhljóðblanda plötuna með okkur. Við héldum svo til Íslands í desember 1974 með nýju Change plötuna í farteskinu, en með í för voru þeir Barnum og Paul Robinson sem stöldruðu við á klakanum á leið sinni vestur um haf. Change platan fékk góðar viðtökur á íslenska jólamarkaðnum.
Til gamans má geta þess að Barnum hóf feril sinn sem barnastjarna og kynntist Bítlunum þegar hann var á tónleikaferð í Hamborg. Þegar Bítlarnir tróðu upp í Hollywood Bowl í ágúst 1964, héldu þeir til á heimili Barnums og slökuðu á í sundlauginni hans.
Meðan á jólaleyfi stóð kom Maggi með þá hugmynd að bjóða Björgvini Halldórssyni í bandið og í kjölfarið buðum við einnig Tómasi Tómassyni stöðu bassaleikara, en hann líkt og Jakob hafði sest að í Englandi og starfaði með þarlendri hljómsveit. Þessi nýja sex manna Change- sveit kom sér fyrir í húsunum tveim í Kent ásamt eiginkonum og börnum í janúarmánuði 1975. Við Magnús undirrituðum höfundaréttarsamning við Chappell & Co til fjögurra ára og hljómsveitin gerði sérstakan starfssamning, sem kvað m.a. á um að Chappell sæju um framfærslu okkar til helminga á móti frænda Magnúsar. Sem hluta fyrirframgreiðslu fengum við að velja okkur hljóðfæri að vild í einni af stærri hljóðfæraverslunum Lundúnaborgar.
Nú var HB Barnum ekki lengur inní myndinni, en Chappell hafði kynnt okkur fyrir nýjum útsetjara og upptökustjóra, Emil D. Zoghby að nafni. Emil þessi hafði verið vinsæll söngvari í Suður Afríku á álíka mælikvarða og Cliff Richard á vesturlöndum, en yfirgaf öryggi frægðarinnar til að freista gæfunnar í Englandi. Honum hafði ekki tekist að endurtaka þann leik, en sinnti nú tónlistartengdum störfum fyrir Chappell m.a. sem A & R maður. Emil hafði kynnt sér Change plötuna og í framhaldi ákveðið að leggja áherslu á styrkleika okkar í margrödduðum söng og nýtti þá hæfieika okkar prýðilega, jafnframt sem áhersla var lögð á að vinna lög vænleg til vinsælda.
Á þessum tíma var glysrokkið í algleymingi og flytjendur eins og Slade, Sweet, Bay City Rollers o.fl. áberandi. Eftir að við höfðum fullklárað nokkur lög með Emil var Paul Robinson sendur út af örkinni til að höndla samning við EMI. Í kjölfarið fórum við til klæðskera í Carnaby Street og Change gallarnir alræmdu komu til sögunnar, en múnderingar af því tagi ásamt platform- skóm voru allsráðandi á þessum árum.
Við útkomu seinni smáskífunnar “Wildcat“, vorum við gestir í sjónvarpsþætti skosku sætabrauðsdrengjanna í Bay City Rollers og þeir kynntu okkur sem sérstaka vini sína frá Íslandi, en gífurlegt áhorf var á þátt þeirra. Í júlímánuði héldum við svo í langþráð „frí“ til Íslands þar sem við tróðum upp vítt og breytt um landið og var það okkur kærkomin tilbreyting frá langvarandi innilokun í hljóðverum og lestum. Þess má geta að frá upphafi lék Change einungis frumsamið efni jafnt á tónleikum sem dansleikjum.
Í ágústlok var förinni heitið til Spánar á vegum ferðaskrifstofunnar Sunnu, þar sem við lékum á sundlaugarbarmi fyrir gesti klúbbsins Pato, Pato. Við snérum svo aftur til Englands í september og tókum upp þráðinn þar sem frá var horfið við upptökur á LP plötu með Emil.
Í desember 1975 hélt hópurinn heim yfir hátíðarnar, fyrir utan Magnús og fjölskyldu sem urðu um kyrrt í Englandi. Eftir áramótin ákvað frændi Magnúsar að hætta fjárstuðningi við hljómsveitina og í framhaldi bárust óskir frá Chappell um að skera niður kostnað vegna veru okkar ytra. Þeir komu með tillögu um að eingöngu söngvarar sneru aftur út og notast yrði við leiguspilara, en aðrir meðlimir Change kallaðir til færu hjólin að snúast. Þá hafði Barnum einnig boðið okkur Magnúsi til samstarfs sem lagasmiðir í Los Angeles.
Þegar hér var komið sögu fýsti hinsvegar engan okkar að yfirgefa klakann á ný, menn höfðu einfaldlega fengið nóg af samstarfinu eftir langvarandi útilegu og innilegu í hljóðverum. Magnús ákvað þó að dvelja áfram í Englandi um sinn og starfaði út samningstímann við Chappell.
Þrátt fyrir að heimsfrægðin hafi ekki fallið Change í skaut, má telja það nokkuð afrek hjá okkur strákunum að hafa öðlast tiltrú alls þessa mæta fólks og náð samningum við stórfyrirtæki eins og Chappell og EMI.