POKER 1977-1978
1977: Pétur W. Kristjánsson, söngur, kazoo, kúari / Björgvin Gíslason, gítar, hljómborð / Pálmi Gunnarsson, bassi, söngur / Kristján Guðmundsson, hljómborð / Sigurður Karlsson, trommur / Jóhann Helgason, gítar, söngur / Gestasöngvari, Shady Owens. 1978: Pétur, Björgvin, Kristján, Jóhann / Ásgeir Óskarsson, trommur / Pétur Hjaltested, hljómborð / Jóhann G. Jóhannsson, bassi. Ljósamaður/plötusnúður, Gísli Sveinn Loftsson/Áslákur. Rótarar: Bjarni og Ágúst Harðarsynir, Hjalti Hafsteinsson, Doddi o.fl. Vettvangur: Keflavikurflugvöllur, sveitaböll, Laugardalshöll, upphitun fyrir The Stranglers, Færeyjar, Klúbburinn o.fl. Útgefendur: Tónaflóð, Skífan, Sena.
brot úr íslenzkri poppsögu © Jóhann Helgason
Líftími íslenskra hljómsveita var stuttur á áttunda áratugnum. Í kjölfar upplausnar hljómsveitanna Paradís og Celsius í ársbyrjun 1977, lögðu Pétur og Björgvin ásamt Pálma og Sigga á ráðin um stofnun nýrrar sveitar og buðu okkur Kidda Guðmunds til samstarfs. Þetta var spennandi hópur að vinna með, samsafn frábærra hljóðfæraleikara og söngvara.
Pétur kom fljótlega með hugmynd að nafni sem að sjálfsögðu bar upphafsstafinn P, eftir samnefndu lagi mínu Poker, sem jafnframt varð að einkennislagi hljómsveitarinnar. Æfingabúðir voru í Þingholtunum og æfðum við alla virka morgna fram eftir degi. Pétur var ókrýndur hljómsveitarstjóri og annaðist allt er laut að rekstri og kynningu sveitarinnar, s.s. ráðningar, uppgjör, tengsl við fjölmiðla, jafnt sem kaup á því nýjasta í ljósa- og sviðsbúnaði erlendis frá.
Frumraun Poker var á Keflavíkurflugvelli í klúbbnum Top of the Rock og með í för var upptökumeistarinn Geoff Calver (eiginmaður Shady Owens). Geoff leist vel á bandið og bauðst til að hljóðrita með okkur efni m.a. til kynningar erlendis. Við bókuðum tíma í Hljóðrita og tókum upp lögin “Driving In The City“, “Get On To A Sure Thing“ og “Take Me To The Sun“. Að upptökum loknum tók Geoff spólurnar með sér til Englands þar sem hann lét útsetja og spila inn strengi- og blásturshljóðfæri.
Um líkt leyti og við fengum fullbúnar upptökur í hendur vorið 1978, höfðu Pálmi og Siggi sagt skilið við sveitina og í þeirra stað voru komnir Ásgeir Óskarsson og Jóhann G. Jóhannsson. Samhliða þessum hræringum var Pétri Hjaltested (áður Paradís) boðin staða orgel- og hljómborðs/strengjaleikara, en Kiddi sá eftir sem áður um píanóleik.
Bandarískur kunningi Björgvins, Jay Egloff að nafni, hafði fengið upptökurnar í hendur og vakið athygli lögmannanna Dennis John Hauge og Jarrell E. Godfrey Jr. á Poker, en þeir starfræktu umboðsskrifstofu í Lousiana. Það hafði í stuttu máli þær afleiðingar að bandarísku lögmennirnir buðu Poker einka-umboðssamning, sem tók til allra anga tónlistargeirans í Norður- og Suður-Ameríku. Samningurinn fól m.a. í sér að hljómsveitin flytti vestur um haf og héldi tónleika víðsvegar um Bandaríkin í lágmark eitt ár með möguleika á framlengingu samningsins.
Í fjölmiðlum hafði verið gefið í skyn að megintilgangurinn með stofnun Poker hafi verið að komast á samning erlendis. Ekki minnist ég þess að við hefðum rætt það sérstaklega, hvorki innbyrðist né opinberlega. Við höfðum að sjálfsögðu jákvæðan metnað fyrir hönd bandsins og héldum öllum möguleikum opnum. En meginstefnan í framkvæmd var að æfa vinsælustu lögin hverju sinni og hafa lifibrauð af spilamennskunni hér heima. Ég einn hljómsveitarmeðlima, hafði búið og starfað með hljómsveit á erlendri grundu og af þeirri reynslu svo til nýfenginni freistaði nýtt ævintýri í útlöndum, með tilheyrandi röskun á fjölskyldu- og heimilishögum mín ekki. Ekki varð af þessu Ameríkuævintýri Poker þar eð samningstilboð bandarísku lögmannanna átti við um sveitina í óbreyttri mynd.