ÁBÓT 1971 /1974
Ábót var samstarfsverkefni okkar fjórmenninga Finnboga Kjartanssonar (sem lagði til nafnið) bassaleikara, Ingva Steins Sigtryggssonar píanóleikara og Magnúsar og mín á kassagítara. Í Ábót lögðum við áherslu á fjórraddaðan söng og æfðum frumsamin lög jafnt sem erlend í anda CSN & Y o.fl. Samstarfið stóð mjög stutt af ýmsum ástæðum en Ábót lék aðeins í eitt skipti opinberlega, á Þjóðlagakvöldi í Tónabæ árið 1971. Árið 1974 dustuðum við Magnús rykið af Ábótarnafninu og notuðum í tilefni útgáfu fjögurra laga barnaplötu.
Saga Ábótarplötunnar „oft veltir lítil þúfa/mús þungu…“
brot úr íslenzkri poppsögu © Jóhann Helgason
Í ársbyrjun 1974 hafði ég gistiaðstöðu hjá Magga Sigmunds og fjölskyldu á Hjallavegi í Njarðvíkum. Í sama fjölbýlishúsi bjuggu einnig Maggi Kjartans og fjölskylda og var mikill umgangur af hljómsveitarfólki og fylgifiskum þess í íbúðum Magnúsanna, þar á meðal var JúBó rótarinn Jón Ólafsson, á þeim tíma betur þekktur sem Jón bæjó. Jón var oft að suða í okkur við dræmar undirtektir um að leyfa sér að gefa út plötu og á þessum tímapunkti ágerðist það í mín eyru.
Þessi bón hans var vægast sagt fjarstæðukennd í ljósi þess að stráklingurinn Jón var blankur fyrrverandi bæjarvillingur en við Maggi um þær mundir í hópi skærustu nýstirna á íslenskum popphimni og þar að auki á samningi í útlöndum, sem þótti fáheyrt á þessum árum. Við vorum önnum kafnir að semja og æfa lög fyrir væntanlega plötuupptöku í London, með nýstofnaðri hljómsveit okkar Change, sem samanstóð af okkur Magga, Birgi Hrafnssyni og Sigurði Karlssyni. En dropinn holar steininn, og staðfast suðið í Jóni hafði um síðir þau áhrif á mig að ég fór að gefa þessari mjög svo óraunhæfu beiðni hans gaum og hugleiða flöt á henni.
Ég átti í fórum mínum lög af ýmsum toga sem ekki hentuðu Change, þar á meðal lögin “Mr. Jones“ og “Father John“ og vissi að Maggi átti viðlíka lög. Eftir þó nokkra umhugsun varð niðurstaða mín sú að það ætti tæpast að skaða okkur Magga þó við gæfum Jóni færi á að sanna kokhreysti sína og spreyta sig á útgáfu fjögurra laga/EP plötu sem væri á allt öðrum forsendum en Change, eins konar barnaplata og að sjálfsögðu með öðru flytjendanafni.
Ég þurfti að beita Magnús töluverðum fortölum uns hann meðtók þessa flippuðu hugmynd og lagði til lögin „Trimm-óðurinn“ og „Barnabæn“. Óþarft er að taka fram að við Maggi þurftum á engan hátt á þessu verkefni að halda ferils okkar vegna. En næst þegar Jón birtist á Hjallaveginum var draumur hans um að gefa út plötu einfaldlega “on” og ákvarðanatakan sem slík aldrei rædd nánar, hvorki þá né síðar. Tækifæri Jóns til að sanna sig sem útgefanda var upp runnið og eftirleikurinn öllum kunnur.
Á þessum tíma fórum við Maggi oft í viku með SBK, Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur á fund þeirra Bigga og Sigga í æfingahúsnæði Change í Reykjavík og í einni slíkri rútuferð samdi ég textann „Litla músin“ við lagið “Mr. Jones“. Eftir á að hyggja er nokkuð skondið að textinn fjalli um Hr. Jón og Heiðu, (móðir Jóns heitir Aðalheiður, kölluð Heiða), hér var þó um einskæra tilviljun að ræða. Til að tengja Jón enn frekar verkefninu, bauð ég honum að semja viðbótar-vers við lagið „Pabbi minn“ (“Father John“).
Þar sem við Maggi vildum á engan hátt bendla Change við þetta hliðarverkefni, fengum við til liðs við okkur þá Hrólf Gunnarsson (Júdas/JúBó), Björgvin Gíslason (Pelican) og Þorstein Ólafsson (Nesmenn). Flytjendanafnið Ábót kom sem fyrr segir frá Finnboga Kjartanssyni.
Það var engan veginn sjálfgefið að Jón myndi valda þessu um margt vandasama verkefni svo vel færi, en hann brást ekki traustinu og sýndi af sér óvenju fagmannlega takta hvað alla þætti útgáfunnar snerti (ef undan er skilið uppgjör við okkur Magga).
Jón bókaði stúdíó, hannaði plötuhulstur með nýstárlegri áletrun; ÁBÓT, bönnuð börnum innan 12 ára, Karnabær auglýsti nýjustu hljómtækin á bakhlið og Jón fékk Þorstein Eggertsson til að hanna plötumiða sem skartaði tveim krókódílum að segja hvor öðrum brandara (Joke-hljómplötur). Þá skorti ekki á kynningar í fjölmiðlum og heilsíðuviðtöl birtust í dagblöðum og tímaritinu Samúel, auk áberandi auglýsinga. Jón sá síðan sjálfur um dreifingu plötunnar á bílaleigubíl.
Eftir að upptökum lauk höfðum við Maggi engan tíma til að gefa þessu hliðarverkefni okkar frekari gaum þar sem við héldum fljótlega af landi brott, fluttir búferlum til Englands. Síðar bárust okkur þær fregnir í stúdíóið að „Litla músin“ væri vinsælasta lagið í Lög unga fólksins og kom það okkur skemmtilega á óvart, en vinsældir lagsins tryggðu velgengni Ábótarplötunnar og uppgang Jóns sem útgefanda.
Margir trúa því að ákveðið fólk og atburðir valdi vatnaskilum í lífi flestra og setji mark sitt á tilveru þeirra. Við Magnús höfum e.t.v. valdið meiri straumhvörfum í lífi Jóns en margur annar með því að veita honum þetta einstæða tækifæri, og forvitnilegt, m.a. í ljósi ummæla Jóns í Jónsbók, (Einar Kárason, 2005) að geta sér til um hvort, hvernig og hvenær hann hefði fundið sér samsvarandi farveg um síðir án okkar tilstillis.
Í ævintýrum kyssa prinsessur froska og þeir breytast í prinsa, við Maggi „kysstum” Jón og renndum ekki grun í að þar færi viðskiptajöfur í álögum. Það má til sanns vegar færa að Jón hafði fram til þessa verið „á rauðu ljósi” sem fyrrverandi bæjarvillingur og tilfinnanlega skort tækifæri til að sanna sig. Með útspili okkar Magga var teningunum kastað og „grænt ljós” fengið.
Eftir að hljómsveitin Change hætti störfum í árslok 1975 flutti ég heim til Íslands. Þrátt fyrir að tengjast svo náið fyrstu sporum Jóns sem útgefanda og hans fyrsta smelli, höguðu atvikin því þannig að ég fór fljótlega að vinna fyrir keppinautinn, Steinar Berg, Steinar hf., en leiðir okkar Jóns lágu lítið saman, utan þess ég samdi nokkur lög fyrir þáverandi útgáfufyrirtæki Jóns, Hljómplötuútgáfuna hf.